Mismunandi meðferðarúrræði eru í boði eftir því hvort krabbameinið er staðbundið, staðbundið vaxið út fyrir kirtilinn eða krabbamein með staðfestum meinvörpum.
Hér á eftir er samantekt yfir helstu meðferðarúrræði. Sum úrræðin henta ekki í þínu tilviki. Læknirinn metur allar niðurstöður rannsókna til að fá heildarmynd af dreifingu (stigun) krabbameinsins og hversu hratt það vex. Þetta hjálpar þér og lækninum að ræða bestu mögulegu meðferð. Ef krabbameinið hefur dreift sér getur meðferð haldið því í skefjum, stundum árum saman.
Fáðu upplýsingar hjá lækninum þínum hvaða meðferð gæti hentað þér. Lestu meira um meðferðarúrræðin hér að neðan:
Staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein
virkt eftirlit (active surveillance)
vöktuð bið (watchful waiting)
skurðaðgerð (brottnám blöðruhálskirtils = radical prostatectomy)
innri geislameðferð (brachytherapy, geislavirkum kornum er komið fyrir í kirtlinum, annaðhvort varanlega eða tímabundið)
Staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein vaxið út fyrir kirtilinn
ytri geislameðferð með hormónahvarfsmeðferð (og stundum með skammvinnri innri geislameðferð)
vöktuð bið (watchful waiting)
skurðaðgerð (brottnám blöðruhálskirtils) með hormónahvarfsmeðferð og/eða ytri geislameðferð, ekki eins algengt
Krabbamein í blöðruhálskirtli með staðfestum meinvörpum
hormónahvarfsmeðferð (stundum með lyfjameðferð)
lyfjameðferð frekari meðferð til að halda í skefjum útbreiddu krabbameini
meðferð í þeim tilgangi að meðhöndla einkenni við útbreiddu krabbameini
Virkt eftirlit (active surveillance)
Virkt eftirlit er ein leið til að fylgjast með hægvaxandi krabbameini. Markmiðið er að forðast eða seinka ónauðsynlegri meðferð hjá körlum með staðbundið krabbamein sem litlar líkur eru á að dreifi sér og forðast þar með eða seinka aukaverkunum meðferðar. Virkt eftirlit felur í sér reglubundnar rannsóknir frekar en að grípa strax til meðferðar. Þú ferð ef til vill í PSA-blóðprufu, sýnatöku og skönn (sjá bls. 8). Fáðu upplýsingar hjá lækninum eða hjúkrunarfræðingi við hverju þú mátt búast. Með rannsóknunum er verið að fylgjast með hugsanlegum breytingum sem benda til þess að krabbameinið sé að vaxa. Ef það reynist rétt er metið hvort þér er boðin meðferð í þeim tilgangi að lækna krabbameinið, svo sem skurðaðgerð (radical prostatectomy), ytri eða innri geislameðferð.
Vöktuð bið (watchful waiting)
Vöktuð bið er önnur nálgun til að fylgjast með blöðruhálskirtilskrabbameini sem gefur engin einkenni og veldur engum óþægindum. Markmiðið er að fylgjast með krabbameininu í lengri tíma. Þetta þýðir að þú getur verið laus við eða seinkað meðferð og aukaverkunum sem af henni stafa. Engin meðferð er gefin nema þú fáir einkenni, t.d. erfiðleika við þvaglát eða verki í beinum. Ef krabbameinið fer að vaxa hraðar en búist var við og þú færð einkenni, t.d. erfiðleika við þvaglát eða verki í beinum, verður þér boðin hormónahvarfsmeðferð í þeim tilgangi að ráða við einkennin frekar en að bjóða meðferð til að uppræta krabbameinið. Karlar í vaktaðri bið fara í færri rannsóknir en karlar í virku eftirliti. Almennt hentar þetta körlum með önnur heilsufarsvandamál auk blöðruhálskirtilskrabbameinsins og körlum sem eru ekki nógu vel á sig komnir til að gangast undir skurðaðgerð eða geislameðferð. Einnig getur þetta átt við ef líkur eru á því að krabbameinið muni ekki valda óþægindum meðan þú lifir eða stytta líf þitt.
Að vera í eftirliti
Ef þér er boðið virkt eftirlit eða vöktuð bið gakktu þá úr skugga um hvorn kostinn læknirinn er að kynna þér. Það er þó nokkur munur á þessu tvennu. Hugtökin eru ekki alltaf notuð á sama hátt og sumir læknar nota önnur hugtök eins og „reglubundið eftirlit“ og „bíða og sjá“. Farðu fram á að fá nákvæmar útskýringar á hvað læknirinn á við.
Skurðaðgerð (brottnám blöðruhálskirtils)
Skurðaðgerð í þeim tilgangi að fjarlægja blöðruhálskirtilinn og krabbameinið sem þar er. Skurðlæknirinn fjarlægir sáðblöðrurnar sem eru tveir kirtlar staðsettir bakvið blöðruhálskirtilinn og framleiða hluta vökvans sem er í sæðinu. Skurðlæknirinn fjarlægir ef til vill einnig nálæga eitla ef hætta er á að krabbameinið dreifi sér þangað.
Til eru nokkrar tegundir skurðaðgerðar:
kviðsjáraðgerð með aðgerðarþjarka (robot) – skurðaðgerð þar sem gerð eru nokkur lítil göt á kviðinn
opin skurðaðgerð – skurður frá nafla að lífbeini
Skurðaðgerð hentar aðeins þeim körlum sem eru með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein og eru vel á sig komnir og hraustir að öðru leyti. Skurðaðgerð getur komið til greina ef krabbameinið er vaxið út fyrir kirtilinn og skurðlæknir telur að hægt sé að fjarlægja það. Þá getur verið þörf á frekari meðferð eftir aðgerðina, til dæmis geislameðferð. Flestir karlar fá aukaverkanir eftir skurðaðgerð. Algengustu aukaverkanir eru þvagleki og ristruflanir, bæði við að fá ris og halda risi (erectile dysfunction). Aukaverkanir geta lagast með tímanum og ýmis meðferðarúrræði eru í boði. Eftir aðgerðina færðu ekki sáðlát þótt þú fáir fullnægingu. Aðgerðin veldur ófrjósemi. Ef þú hefur áform um að eignast börn eftir aðgerðina er hægt að frysta sæði áður en aðgerð fer fram og beita glasafrjóvgun.
Ytri geislameðferð
Háorkuröntgengeislar, frá geislagjafa sem er fyrir utan líkamann, eru notaðir til að eyðileggja krabbameinsfrumur. Ytri geislameðferð meðhöndlar allan kirtilinn og stundum einnig svæðið næst honum. Meðferðin hentar þeim sem eru með staðbundið krabbamein og sumum sem hafa krabbamein sem hefur vaxið út fyrir kirtilinn. Stundum er beitt hormónahvarfsmeðferð samhliða geislameðferð. Sumir karlar fá aukaverkanir af ytri geislameðferð. Þær geta verið tíð þvaglát og erfiðleikar við þvaglát, breytingar á hægðamynstri eins og tíðari hægðalosun og lausari hægðir, stundum niðurgangur, ristruflanir og þreyta. Aukaverkanirnar koma fram á meðferðartímabilinu og lagast yfirleitt með tímanum. En stundum vara þær í langan tíma eftir að geislameðferð lýkur og koma jafnvel síðar, stundum mörgum árum seinna. Ýmis meðferðarúrræði standa til boða til að takast á við aukaverkanirnar.
Innri geislameðferð (brachytherapy)
Geislavirkum gjafa er komið fyrir inni í blöðruhálskirtlinum til að eyðileggja krabbameinsfrumur.
Til eru tvær tegundir af þessari meðferð, háskammta innri geislun og lágskammta innri geislun:
Lágskammta innri geislun er einnig nefnd langtíma innri geislun. Litlum geislavirkum kornum er komið fyrir í kirtlinum og þau skilin þar eftir. Kornin gefa geisla í átta til 10 mánuði en eru í kirtlinum það sem eftir er ævinnar. Meðferðin getur átt við ef krabbameinið er staðbundið og líklega ekki vaxið úr fyrir kirtilinn.
Háskammta innri geislun er einnig nefnd skammvinn innri geislun. Geislavirkum kornum er komið fyrir í kirtlinum nokkrar mínútur í einu og síðan eru þau fjarlægð. Þessi meðferð er notuð til að meðhöndla staðbundið krabbamein sem líkur eru á að sé hraðvaxandi og stundum við staðbundnu krabbameini sem er vaxið út fyrir kirtilinn.
Innri geislameðferð er hægt að nota með ytri geislameðferð í þeim tilgangi að gefa öllum kirtlinum og svæðinu næst honum hærri geislaskammt en ella. Hugsanlega er gefin hormónahvarfsmeðferð í nokkra mánuði áður en innri geislameðferð hefst í þeim tilgangi að draga kirtilinn saman. Sumir karlar fá aukaverkanir eftir innri geislun eins og erfiðleika við þvaglát, ristruflanir og mikla þreytu. Þeir sem fá lágskammta innri geislun geta fengið breytingar á hægðamynstri, einkennin eru þó oftast væg. Meðferðarúrræði eru í boði til að takast á við aukaverkanirnar.
Hormónahvarfsmeðferð
Blöðruhálskirtilskrabbamein getur vaxið ef karlhormónið testósterón er til staðar. Hormónahvarfsmeðferð er gefin til að stöðva testósterónáhrifin á krabbameinsfrumurnar. Meðferðin hefur áhrif á allar blöðruhálskirtilskrabbameinsfrumur hvar sem þær eru í líkamanum. Hormónahvarfsmeðferð læknar ekki blöðruhálskirtilskrabbamein en heldur því í skefjum, stundum árum saman. Hormónahvarfsmeðferð er oft gefin samhliða ytri geislameðferð þegar blöðruhálskirtilskrabbamein er staðbundið. Það er einnig hefðbundin meðferð við langt gengnu blöðruhálskirtilskrabbameini. Ef þú ert með útbreitt krabbamein er þér ef til vill boðin lyfjameðferð samhliða hormónahvarfsmeðferðinni.
Hormónahvarfsmeðferð getur verið þrenns konar:
sprautur eða ígræðsla til að stöðva testósterónframleiðslu líkamans
töflur sem stöðva áhrif testósteróns
skurðaðgerð til að fjarlægja eistun sem framleiða testósterón
Hormónahvarfsmeðferðin veldur aukaverkunum þegar magn testósteróns minnkar í líkamanum. Þær geta verið:
risvandamál, bæði að fá ris og halda því
roti og eymsli í geirvörtum
þyngdaraukning Líkurnar á aukaverkunum fara eftir tegund og lengd meðferðar. Til eru leiðir til að takast á við þær.
Lyfjameðferð
Í lyfjameðferð eru notuð frumudrepandi lyf til að drepa krabbameinsfrumur hvar sem þær eru í líkamanum. Lyfin útrýma ekki blöðruhálskirtilskrabbameininu en þau stuðla að því að minnka það og hægja á vexti þess.
Lyfjameðferð er yfirleitt notuð þegar blöðruhálskirtilskrabbameinið hefur dreift sér. Hægt er að nota hana með hormónahvarfsmeðferð hjá þeim sem eru nýgreindir með útbreitt blöðruhálskirtilskrabbamein. Einnig er hægt að gefa lyfjameðferð þeim sem svara ekki lengur hormónahvarfsmeðferð.
Lyfjameðferðinni fylgja aukaverkanir sem erfiðara er að ráða við ef þú ert með önnur heilsufarsvandamál auk krabbameinsins. Þess vegna þarft þú að vera nokkuð vel á þig kominn líkamlega ef þú færð lyfjameðferðina.
Aukaverkanirnar geta verið mikil þreyta, lystarleysi, hármissir, hægðavandamál, sár í munni og minni mótstaða gegn sýkingum. Aukaverkanirnar lagast yfirleitt smám saman þegar lyfjameðferð er hætt.
Meðferð sem miðar að því að halda útbreiddu blöðruhálskirtilskrabbameini í skefjum
Frekari hormónahvarfsmeðferð, stundum samhliða lyfjameðferð, er fyrsta val í slíkum aðstæðum. Til lengri tíma litið minnka áhrif hennar en önnur meðferðarúrræði eru í boði sem geta hjálpað við að halda krabbameininu í skefjum og lengja lífið:
Frekari hormónahvarfsmeðferð getur hjálpað að halda krabbameininu í skefjum. Þér gæti verið boðin ný tegund meðferðar með lyfinu Abiraterone (Zytiga®) eða Enzalutamide (Xtandi®).
Frekari krabbameinslyfjameðferð getur verið í boði ef hormónahvarfsmeðferðin er hætt að skila nógu góðum árangri.
Radium 223 (Xofigo®) er ný tegund innri geislameðferðar sem getur lengt lífið. Hún getur einnig seinkað einkennum, til dæmis verkjum í beinum og beinbrotum vegna útbreiddra meinvarpa í beinum.
Sterar geta minnkað testósterónframleiðslu líkamans. Þeir auka einnig matarlyst, orku og minnka verki.
Einkennameðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli með staðfestum meinvörpum
Ef þú ert með útbreitt blöðruhálskirtilskrabbamein og einkenni, t.d. verki í beinum, þá eru meðferðarúrræði í boði:
Verkjastillandi lyf geta slegið á verki.
Geislameðferð getur minnkað einkenni. Þá er notast við lága heildarskammta til að hægja á krabbameinsvexti og draga með því úr einkennum.
Ákveðin lyf (bisphosphonates) eru notuð þegar blöðruhálskirtilskrabbamein hefur dreift sér til beina. Þau styrkja beinin og minnka þannig hættuna á beinbrotum hjá körlum sem eru með beinþynningu af völdum krabbameinsins. Þau eru einnig notuð til að draga úr verkjum í beinum.
Klínískar rannsóknir
Klínísk rannsókn er ein tegund rannsókna í læknisfræði. Markmið klínískra rannsókna er að finna nýjar og betri leiðir til að fyrirbyggja, greina og meðhöndla sjúkdóma og halda þeim í skefjum. Þú getur spurt lækni þinn hvort einhverjar rannsóknir séu mögulega í gangi sem standi þér til boða að taka þátt í.